Afsakið börnin góð

Fyrir bloggleysið.Óánægjuraddir hvaðanæva úr heiminum, frá hverju heimshorni hafa dunið í eyrum mínum vegna færsluleysis og nú er komin tími á að sinna aðdáendum mínum. Undanfarna daga hef ég legið í móki á bókasafni er kennt er við verkfræðihús háskóla íslands. Ykkur má undra hvers vegna ég kjósi að læra þar en ekki ásamt samnemendum mínum úr líffræðinni; ástæðan er einföld: í áðurnefndu húsi úir og grúir af myndarlegum mönnum og fátt finnst mér skemmtilegra en að virða fyrir mér myndarlega menn.  Þannig það má segja að milli þess sem ég skoða sæta rassa á sætum strákum hef ég reynt að troða einhverri tortroðanlegri visku í hausinn á mér sem ég er ansi hrædd um að glatist þegar líða fer á sumarið.  Á móti kemur að einhver önnur viska eða óviska nær að festa sess í hausnum á mér sem er svo sem allt í lagi þar sem einhver fróður maður sagði að öll reynsla er góð reynsla. 

Er búin með tvö próf af þremur. Fyrsta prófið mitt var skemmtilegt skop á efnafræði með sadista ívafi. Blessaður kennarinn hefur verið í hatursham með brennivín við hönd þegar hann samdi prófið og svo hefur ekki verið runnið af honum þegar hann lagði það fyrir. Ekker við því að gera nema taka það á húmornum. Blessaður maðurinn er fastur í heimi efna og talar í efnaformúlum. Seinna prófið var núna áðan og eins og alltaf þegar ég fæ blað og blýant fer ég að slá um mig með orðatiltækjum og orðum sem ég annars nota ekki í daglegu máli:  "Sá böggull fylgir skammrifi "er eitt af því sem ég notaði í prófinu og fannst ég hljóma ógeðslega klár......rann svo upp fyrir mér áðan hvað ég er mikill montsnobbmálkona. 

Þriðja prófið mitt er svo ekki fyrr en eftir viku svo ekki er annað að gera en að prófa nýju glösin sem íris var að kaupa í IKEA sem er víst alveg ægilega skemmtileg búð þegar maður er fluttur inní sitt eigið húsnæði. Sjálf er ég nú hrifnari af skóbúðum og alla þá gleði sem þær geta fært manni með litríkum skóm, háum, lágum, flötum,lakk,leður nú eða efnisskó fyrir þá sem vilja ekki ganga í dýrum.

Við skulum, kæru aðdáendur láta þetta nægja í bili! En örvæntið eigi því ég aldrei mun ég vanrækja ykkur og aldrei gleymi ég ykkur. Ef blogg mitt litar líf ykkar þá er ég öll af vilja gerð og  skal rausa um risastórar ranabjöllur rífandi í sig rasandi ráðherra sem rangla um í rífandi rappmennsku um rasisma. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband