24.3.2008 | 17:17
Ferðasaga1
Þegar ég vaknaði í morgunn eftir að lestarkallinn var búinn að banka þrisvar til að segja mér að komið yrði í höfn eftir 20 mín, var mér litið útum gluggan: slydduógeð. Ég íhugaði alvarlega að fara og kaupa mér miða til baka í sólina og rykið og geðveikis umferðina í Bucarest. Í staðinn tók ég strætó heim og lagði mig og viti menn þegar ég vaknaði sást glitta í sól.
Það var líka rigning og dimmt þegar ég fór frá Búdapest og það var sól þegar ég kom til Bucarest. Afskaplega myndarlegur maður á afskaplega myndarlegum silfruðum jeppa beið eftir mér og leiddi mig útaf lestarstöðinni. Þegar við héldum á stað útí umferðina leist mér ekki á blikuna og hélt í allt sem ekki var á fleygiferð um bílinn. Það eru engin strik á götunum þannig fólk vippar sér þar sem er pláss jafnvel þó fimm bílar séu hlið við hlið og brunar svo framúr öllum um leið og græna ljósið er við það birtast. Framúrakstur er í tísku sérstaklega ef hann er nógu glæfralegur; í nokkur skipti sat ég stjörf og horfði í gular glyrnur á bílum sem komu á móti okkur (hvort sem þeir eða hann voru að taka framúr). Ég er ekki þekkt fyrir að vera bílhrædd og hef verið kölluð glanni og óþolinmóð í umferðinni; í þessari umferð væri ég eflaust ennþá að bíða eftir plássi á einhverjum gatnamótum.
Fyrsta daginn var mér hent útí djúpu laugina. Ferðinni var heitið í þorpið þar sem mamma hans og amma og fyllibyttufrændi búa. Amman var lítil (pínulítil) í pilsi og vesti með sjal um hausinn og tannlausan munn fyrir utan eina gulltönn (Robert og amman eru að fara til tannlæknis í vikunni, hann að láta rífa úr sér jaxl, hún að fá sér nýtt sett), hún var líka með fallegt sett af augum. Mamman (Constantina) var krúttlega ítölsk í útliti og talar hátt. Samskipti okkar á milli fólust í brosi og augngotum. Ég tala ekki stakt orð í rúmönsku og þær ekki ensku (ég kann reyndar að segja bróðir, nei, já og takk og alltí lagi). En amman var mega sæt, ég hefði átt að taka mynd af henni.
Robert er að vinna í að endurnýja heimakynni þeirra mæðgna, nú og frændans. Hús ömmunnar er tilbúið og krúttlegt í meiralagi, mömmuhúsið er í vinnslu og frændinn er kominn með eldhús og sturtu. Áður bjuggu þau í mjög hrörlegu húsi sem frændinn náði svo með undraverðum hætti að rústa; mér dettur í hug drykkjulæti og amman flutti út. Svo kom hetjan og reddaði málunum; nú fá allir sitt eigið hús og svo ætlar hann að búa sér til hús á sömu lóð við vatnið. Þannig er það að þegar ungarnir eru flognir úr hreiðrinu þá verða þeir á einhverjum tímapunkti að snúa til baka og hugsa um foreldra sína og foreldra þeirra. (p.s það var líka kamar því amman neitar að nota nýja fína klósettið inní húsinu, fyrr skal rassinn á henni frjósa en að tefla við páfann inní húsinu).
Frændinn. Ætli sé ekki best að lýsa honum.....nei annars. Eflaust getið þið fundið tvífara hans einhversstaðar við Austurstrætið niðri við ríkið og ef þið leitið vel þá getið þið jafnvel tekið eftir kærustunni hans. Hann talaði heldur enga ensku en lagði ríka áherslu á mál sitt með því að grípa þéttingsfast um upphandlegginn á mér. Svo kvaddi hann mig með einum blautum beint á kinnin....næs! Fyrst þegar ég hitti þau skötuhjú sátu þau saman og spiluðu á hljómborð, kella með sár á nefinu eftir slagsmál. Næst þegar ég hitti þau var sárið á kellunni gróið en í staðinn var frændinn með brotið nef.....Og Robert hvíslaði því að mér í eitt skiptið þegar frændinn tók gúlsopa af einhverju áfengu að hann drykki aldrei vatn en væri ótrúlega hress (þangað til.....)
Þegar komið er útúr Bucarest má sjá sígauna eða sveitafólk á hestvögnum. Ég tók aldrei eftir fólkinu sem sat á vögnunum en gvuð minn góður ég tók eftir ástandinu á mörgum af hrossunum. Það sást í hvert rif á fætur öðru, mjaðmabeinin sköguðu út og þau voru mött og rytjuleg. Það virðist nefnilega vera svo að margir líta á hestana sína eins og gamlan bíl: nota þau eins mikið, eins ódýrt og hægt er þangað til þau detta niður dauð. Þau líta á hrossin sem vinnuvélar. Ég hef ekkert á móti því að nota hesta sem vinnudýr en það er lágmark að hlúa að þeim og sjá til þess að þau skorti ekkert þannig þau geti unnið vel. Og götuhundar voru á hverju horni hvort sem það var í þorpunum, Bucarest eða við þjóðvegin. Ótrúlegt en satt þá litu flestir þeirra vel út og virtust vera í ágætis holdum. Sumir taka að sér að gefa þeim að éta en svo eru það allra villtustu sem halda sig í hópum og gæða sér á hvers kyns rusli og eru aggresívir gagnvart fólki. Nokkrum sinnum kom ég auga á svona gengi og þetta eru 5-15 hundar sem halda sig saman, minnti mig soldið á Ógnargengið úr Garðabænum. Það gerist víst endrum og eins að þeir ráðast á fólk og þeir hafa jafnvel drepið fólk......
Spurning um að fara í mission og gelda alla götuhunda.......hmmm!
Læt hér við sitja í bili, ætla að fara og fá mér súpu með erell þar sem allar búðir voru lokaðar í dag og það eina sem ég á er dós af maís. Og ég vona að staðurinn sé opinn sem við ætlum á.....annars eru það gular baunir og súkkulaði í kvöld.
Athugasemdir
meira meira meira!!
þetta var skemmtilegt inam. ég vil líka sjá myndir!!
katrín atladóttir, 24.3.2008 kl. 17:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.